Mannleg framtíð og hollt heimafengið grænmeti

Það er sorglegt hvernig virðist vera að fara fyrir íslenskri ylrækt á grænmeti og blómum og ömurlegt að ríkisvaldið hafi ekki getað stutt betur við þessa iðngrein sem á sínum tíma stóð fyrir uppbyggingu heilu bæjanna. Það má benda á fjölmarga bæi sem byggðust upp í kringum gróðurhúsaræktunina, Hveragerði, Flúðir, Laugarás, Reykholt, Kleppjárnsreykir og fleiri. Íslendingar með alla sína ódýru orku í formi heits vatns og rafmagns og hugvit virðast ekki ætla að geta haldið áfram því frábæra starfi sem þeir garðyrkjumenn sem byggðu upp iðnaðinn í áðurnefndum bæjum og víðar hófu. Hversu mikið er rafmagnið í stóriðjuna niðurgreitt á kostnað okkar og komandi kynslóða?

Úr matjurtagarði Grasagarðsins í Laugardal Úr matjurtagarðinum í Grasagarðinum í Laugardal/ mynd Samson Bjarnar Harðarson

Á krepputímum og með hugsanlegri breytingu á markaðkerfi og óstjórnlegum flutningi á vörum um langan veg milli landa (sem byggir á (stríðsrekstri) niðurgreiddri olíu frá Írak og víðar) mætti nú aftur efla þennan atvinnuveg hér. Það er ólíkt minni fjárfesting en í heilu álverunum, sem samkvæmt grein Indriða H. Þorlákssonar fyrrverandi ríkisskattstjóra í mogganum í dag, eru ekki að gefa allt of mikið að sér fyrir þjóðarbúið. Það mætti líka segja mér að meiri raunveruleg lífsgæði og menning fylgi aukinni garðyrkju heldur en álframleiðsla sem að því virðist fer mest í bjór og gosdósir í Bandaríkjunum m.a. vegna þess að þær eru ekki endurunnar. Það er heldur ekki úr vegi að hægt sé að flytja út grænmeti og blóm til Evrópu, landrými þar fer minnkandi og framleiðsla í sumum "ódýru" löndunum byggir aðallega á arðráni á fólki og náttúru s.s.  gríðarleg ræktun á Spáni, þar sem notast er við innflutt vinnuafl, vatn sem er af skornum skammti og eitur af öllu tagi.

Garðyrkjan er hluti af Nýja Íslandi


mbl.is Aðför ríkisins að íslenskri garðyrkju
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Austurvöllur - vettvangur lýðræðis

Á undanförnum mánuðum hefur vetrarlífið á Austurvelli verið mun fjölbreytilegra en oft áður, þar koma mótmælin á laugardögum auðvitað við sögu og nú síðast fyrir framan Alþingishúsið. Mótmælin eru birtingarmynd lifandi lýðræðis, hvað svo sem sumum kann að þykja um raunveruleg eða ímynduð skrílslæti sem þeim fylgja. Það gerir Austurvöll enn verðmætari í huga fólks að hann sé ekki bara stássstofa fyrir hátíðar og fagnaðarstundir heldur vettvangur lýðræðis, þar sem allir geti tjáð sína skoðun og jafnvel óánægju.

 

Þetta bloggkorn mitt um Austurvöll  kemur til vegna mótmælanna að undanförnu, en er liður í greinaröð sem ég kalla “gangan um græna netið” (þ.e. net útivistarsvæða á höfuðborgarsvæðinu) og er því lítillegt hliðarstökk frá strandlínunni þar sem ég var staddur yfir á þennan völl allra landsmanna.

 

Í raun má segja að Austurvöllur sé upphafsreitur græna netsins í Reykjavík, hann hefur alltaf verið táknræn miðja Reykjavíkur og íslenska lýðveldisins. Austurvöllur er jafnframt fyrsta opinbera græna svæði sem yfirvöld á Íslandi byggja í kjölfar þess að borgarstjórn Kaupmannahafnar gaf Íslendingum sjálfsmynd Bertels Thorvaldsen í tilefni 1000 ára afmælis Íslands 1874. Löngu áður hafði Austurvöllur þó verið miðja bæjarins, þar slógu bændur upp sínum tjöldum þegar kaupstefna var á haustin og þar dró Jörundur Hundadagakonungur upp fána „fyrsta íslenska lýðveldisins” 1809. Í þá daga var Austurvöllur þó mun stærri og náði alveg að húsaröðinni við Hafnarstræti. Það er því ýmislegt sem hefur gerst á Austurvelli hvort heldur sem talað er um opinbera atburði eins og 17. júní, óeirðirnar 1949, mótmælin núna veturinn 2008-2009, eða persónulegri atburði eins og þegar Jón hitti Gunnu.

Austurvöllur um 1801 

Teikning eftir Aage Nielse-Edwin sem sýnir Reykjavík 1801

Austurvöllur er alveg einstakur staður, hvar er betra skjól á sólríkum sumardegi þegar kulsöm norðanáttin leikur um Kvosina eins og hún gerir svo oft. Iðandi af mannlífi á sumrin í góðu veðri eru fáir staðir yndislegri í Reykjavík. Það má telja furðulegt að ekki hafi verið byggðir fleiri staðir í Reykjavík eins og Austurvöllur, það er að segja skjólríkur staður fyrir fólk í skjóli húsa sem snýr á móti sólu, það er jú aldalöng hefð fyrir slíku skipulagi, burstabæirnir með hlaðið sunnan undir gafli voru svona gerðir. Íslendingar eru gaflarar, ekki bara Hafnfirðingar, það er eins og skipulagsfræðingar og arkitektar landsins hafi ekki alveg áttað sig á þessu a.m.k. þegar maður sér þá opna allt upp fyrir norðanáttinni t.d. með svokölluðum sjónásum á Esjuna.

 

Suðurgaflastefnan ætti að vera grunnurinn í öllu skipulagi á Íslandi, hugsið ykkur þétta lágreista byggð 3-4 hæða húsa þar sem sólin nær niður á götuna og þið getið gengið úr einum austurvellinum til annars í sól og skjóli. Fagurt útsýni er gott, skjól er betra enda nýtur augað þess betur sem það sér ekki sífellt.

 

Þetta var svolítill útúrdúr, förum aftur á Austurvöll. Stundum, eins og t.d. eftir marga rigningadaga þegar fæturnir sökkva ofan í drulluna á grasvellinum og á veturna þegar hálir klakabunkar gera völlinn að háskasvæði, gæti okkur þótt betra og menningarlegra að hafa hellulagt yfirborð, jafnvel upphitað en þó held ég að fáir myndu vilja skipta á því og iðagrænu grasinu sem skreytir Austurvöll á sumrin.

En mikið má gera til að gera Austurvöll að enn betri stað en hann er í dag og langar mig að koma með nokkrar tillögur.

Það sem að mestu máli skipti væri að koma meira lífi í allar hliðar hans, sérstaklega vil ég benda á Landsímahúsið sem virkar mjög niðurdrepandi á vesturhlið hans. Svæðið framan við það sem snýr að Kirkjustræti og að Fógetagarðinum er einnig alveg steindautt, þarna þyrfti að koma á fót líflegri starfsemi sem laðar að sér fólk. Í raun þá hafa bankar og stofnanir að verulegu leyti drepið lífið í Kvosinni, sjáið til dæmis Landsbankann við Austursstræti og Hafnarstræti og Héraðsdóm við Lækjartorg.

Það má hugsa sér að útvíkka Austurvöll út í meira borgartorg á bílastæðið sem er bak við Kirkjustræti, það er mikil þörf fyrir meira opinbert útirými sérstaklega á stórhátíðum og góðviðrisdögum, þar gæti þróast nýtt smáverslana og kaffihúsatorg og saman myndu þau mynda stærri og þróttmeiri Kvosarmiðbæ, auk þess að mynda sterkari tengsl yfir í Ráðhúsið.

Til að tryggja sem mest líf í götum verður að gæta þess að ein verslun taki ekki heilu og hálfu húsalengjurnar, eins og bankarnir hafa gjarnan gert, heldur að þær taki sem minnst pláss af götulengjunni og nái þá lengra inn í bakhúsreitinn ef þörf er á.

 

Hvað sem að framtíðin ber í skauti sér vona ég að Austurvöllur fái áfram að vera það sem hann er í dag, staður fólksins.

 

 


Appelsínugul mótmæli að mínu skapi, vantaði þó bálið með salsataktinum

Mér fannst frábært í gær hversu vel friðarmótmælendurnir breyttu ásýnd mótmælanna. Ég verð þó að viðurkenna að ég saknaði bálsins, það gefur svo góða stemmningu með seiðandi reykvíska salsataktinum sem hefur þróast í þessum mótmælum. Það er heldur ekki verra að hafa eldin að orna sér við í kuldanum.
mbl.is Appelsínugul mótmæli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Blái Borðinn á norðurströnd Seltjarnarness - Gengið um Græna netið

Það var fallegt og fremur kalt veður sunnudaginn 11. janúar þegar við héldum áfram göngu okkar um Græna Netið. Við lögðum bílnum okkar við á bílastæðinu við Gróttu, sem er frábær staður til að njóta útsýnis þegar er fallegt sólarlag eða brim. Leiðin sem við völdum að þessu sinni var frá Gróttu um norðurströnd Seltjarnarness að bæjarmörkum Reykjavíkur við Eiðisvík og þaðan tilbaka og upp hjá kirkjunni og um göngustígakerfi gegnum íbúðarhverfin (Strandahverfi, Hofgarða og Sefgarða) og niður um túnið á Nesi að göngustígnum við Seltjörn. Gangan tók um klukkustund á hægu rölti.
2 Seltjarnarnes_-_norðurströnd_21 2 Seltjarnarnes_-_norðurströnd_31
Það er mikill kostur að geta valið sér hringleiðir, það er einhvern veginn miklu skemmtilegra því þá sér maður eitthvað nýtt alla leiðina.
Í góða veðrinu var fullt af fólki, gangandi, hlaupandi, hjólandi, akandi. Það er einnig margt að sjá á þessari leið, skemmtilegar fornminjar sem flestar tengjast útgerð sem Settjarnarnesbær hefur af myndarbrag hugsað vel um og víða sett upp upplýsandi merkingar þeim tengdum.
Á göngu okkar sáum við sel sem fór um með miklum bægslagangi, eins og hann væri í æti og flokkur af máfum sem fylgdi honum, þarna sáum við einnig sérkennilegan og litskrúðugan fugl, Hávellu, sem er nokkuð algeng á þessum slóðum.                                                                                                 Við ákváðum að fara út að sveitarfélagamörkunum þar sem eru fallegar steinhleðslur úr sjávarnúnu grjóti, handverk sem fáir núlifandi menn kunna. Þaðan gengum við upp fram hjá bæjarskrifstofunum upp tröppurnar hjá Seltjarnarneskirkju. Uppi á Valhúsahæð er ágætis útsýni. Við gengum áfram um göngustíg sem liggur um íbúðarhverfi og nokkuð skjólsælli en með ströndinni, þarna má skoða marga fallega garða, sumir hverjir með fáséðum sígrænum tegundum og öðum eins og Notofagus eða Snælenja á íslensku. Það er áhugavert að sjá hvað margar plöntutegundir þrífast í særokinu á Seltjarnarnesi, tegundir sem oft eru viðkvæmar annars en kunna vel við sig á vetrarmildum svæðum sem þessu.
Gönguna enduðum við með að ganga fram hjá Nesstofu að göngustígnum við Seltjörn og Gróttu.

Þessi gönguleið er nokkuð samfelld og öll malbikuð og auðfarin ef undan eru skildar tröppurnar og brekkan upp að kirkjunni á Valhúsahæð. Það er ágætt að með stígnum við ströndina er breið grasræma sem er mýkra undirlag að ganga á og gott til að hvíla fæturna á malbikinu.

2 Seltjarnarnes_-_norðurströnd_52


Gengið um Græna Netið - Strandlengjan við golfvöllinn á Seltjarnarnesi

 

Mikið var það yndislegt eftir allan kreppubarninginn að fá langt og gott jólafrí eins og gafst nú um jólin, dumbungurinn úti gerði það að verkum að maður svaf ansi þungt á morgnana. Það var því orðið nokkuð mikið af því góða fyrstu helgina eftir nýár svo við hjónin ákváðum að fá okkur hressilegan göngutúr og varð það fyrir valinu að ganga út á Nesi.

Við lögðum bílnum á bílastæðinu við Bakkatjörn og gengum suðurum nesið í hring um golfvöll Seltirninga. Margt fólk var á ferli þótt að það væri æði lágskýjað, líklega eins og við að reyna að hrista af sér jólaværðina og meira að segja tveir vel dúðaðir golfspilarar voru að berja kúlu á vellinum.

Á heiðskýrum dögum er þarna víðsýnt bæði suðurum til Bessastaða og Álftaness og út allan Reykjanesskaga og að norðanverðu til Akraness, Esjunnar og alla leið til Snæfellsness. Á lágskýjuðum degi þegar skyggni er lítið eins og þeim sem við völdum í gönguna er einnig ýmislegt að sjá á þessari leið, mikið fuglalíf og jafnvel getur maður séð seli liggja á skerjum ef maður er heppinn eins og við vorum í þetta skipti.

Yst á nesinu eru stríðsminjar, eftirlitsstöð og fallbyssuhreiður frá seinni heimstyrjöldinni sem nýtist ágætlega í fuglaskoðun. Þaðan gengum við eftir göngustígnum að bílastæðinu við Gróttu og svo fjöruna til baka.

 Útivistarsvæðið við golfvöllinn, striðsminjar í fjaska 

Þessi ganga okkar er upphafið að gönguferðum sem við hyggjust fara í á næstunni um Græna Netið svokallaða, sem er net útivistarsvæða tengt saman með hjólreiða- og göngustígum á höfuðborgarsvæðinu. Blái borðinn er tilvalið nafn á strandlengjuna til aðgreiningar frá öðrum leiðum Græna Netsins sem liggja inni í borginni. Tilgangurinn er að kortleggja svæðið með myndum og frásögnum af upplifunum til að kanna betur Græna Netið. Göngustíga- og hjólreiðakerfið má finna á götukortunum í símaskránni.

 

 Á þessari leið var ýmislegt að sjá og skoða sem tengist mínu fagi. Göngustígurinn umhverfis golfvöllinn er malarstígur sem er nokkuð mýkri undir fæti en malbikuðu stígarnir sem eru víðast hvar. Þeir geta hins vegar verið erfiðir sem hjólreiðastígar en í þessu tilviki er þetta ekki aðalstígur heldur hreinn útivistarstígur og eykur því fjölbreytileika.

 

Víða með ströndinni um höfuðborgarsvæðið hafa verið hlaðnir sjóvarnargarðar sem er ágætt framtak í sjálfu sér en gerir það að verkum að aðgengi í fjöruna verður mjög lítið eða erfitt þar sem stórgrýti er í görðunum, fjaran sem er frábært útivistarsvæði er í raun klippt frá fólki. Tilraunir hafa verið gerðar á stígnum um golfvöllinn á Seltjarnarnesi til að bæta úr þessu og eiga þeir hrós skilið sem staðið hafa að því. Aðgengið er þannig útfært að gerð er einskonar hlaðin renna eða rampur. Hann vill hins vegar fyllast af þara í brimi og er því ekki víst að hann virki vel í öllum tilfellum og þarinn oft háll. Í sandfjörum eins og við Seltjörn er þetta ekki vandamál. Þar er fjaran opin og breið enda iðulega margt fólk sem gengur þar.

Fjaran er spennandi útivistarsvæði, og nýtist til dæmis bæði sem kennslustofa og leikvöllur fyrir börn. Henni hefur að mestu leyti verið lokað eða jafnvel eyðilögð með fyllingum á höfuðborgarsvæðinu. Fjaran við Seltjörn ein örfárra sem eftir er því þótt hún sé að mestu leyti varin með stórgrýti má samt komast niður í hana á auðveldan hátt frá bílastæðinu nálægt Gróttu. Hinu megin við golfvöllinn er aðgengið hins vegar erfitt.

 Rampur niður í fjöruna við golfvöllinn

Þessi leið er skemmtileg og þægileg ganga fyrir alla og nóg að skoða. Hún er síbreytileg eftir veðri og árstíðum og þótt oft blási þá er útsýnið stórfenglegt. Þrátt fyrir að vera svo að segja í borginni þá er nálægðin við náttúruna mikil. Þarna gefst einstakt tækifæri til að komast í snertingu við náttúruöflin og víðáttuna.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband