Færsluflokkur: Umhverfismál

Óstjórnlegur trjáræktaráhugi borgarstjóra

Það er ekki hægt að segja annað en að óstjórnlegur trjáræktaráhugi hefur gripið borgarstjóra, svo mikill að nú verða eldri tré að víkja til að koma að nýjum. það er í sjálfu sér í lagi að skipta út nokkrum öspum ef það sem kemur í staðin sé þess virði. En ætli hóf í þessu sem öðru sé ekki affararsælast. Það er alveg ljóst að það tekur hin nýju tré nokkurn tíma að ná viðlíka hæð og aspirnar sem verið er að fjarlægja hafa þegar náð, vonandi verða plönturnar sem koma í staðin ekki of mikil kríli. Annars er öspin ágætis tré þ

ótt hún geti verið svolítið aðgangshörð og vil ég halda uppi vörnum fyrir hana. Það eru einnig til mörg yrki af alaskaösp, það sem fagmennirnir í daglegu tala um sem klóna, þeir geta verið mismunandi í vaxtarlagi, háir grannir, lágar og breiðar jafnvel grannar og lágar, svolítið eins og mannfólkið. Aspirnar sem stóðu við ráðhúsið og Vonarstræti eru af gerðinni háar og grannar, líklega klónarnir ´Súla´,´Jóra´ eða ´Salka´, í raun svolitlar brussur og passa vel í stórgerðara umhverfi, það væri t.d. upplagt að gróðursetja svolítið af þeim við háhýsin sem risu í gróðærinu, svona aðeins til að draga húsin niður í skala við okkur mennina. Þær gætu líka bætt aðeins úr skjólleysinu sem þessi hús valda og gera víða illmögulegt að ferðast hjá.

Hér á bloggsíðunni minni er grein sem ég skrifaði síðasta vetur um tré í borg. Vil svo minna á í lokin, það tekur einungis örstutta stund að saga niður tré sem hefur vaxið í hundrað ár, hugsum áður en við sögum, bæði við og sólin getum fært okkur en trén ekki, eitt skref til hægri og þú ert komin í sólina.

Sýrena 'Villa Nova' og Alaskaösp 'Keisari' í Grasagarðinum

Á myndinni sést falleg ösp ásamt sýrenu ´Villa Nóva´ 


mbl.is Taka aspir niður við ráðhúsið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tré fyrir götur og torg

Þessa grein er byggð á erindi sem ég hélt á ráðstefnu sem haldin var um tré fyrir götur og torg mánudaginn 21. Febrúar síðastliðinn.

Mér finnast tré falleg, öll tré, líka þau ljótu, nema kannski þau allra ljótustu, þau langar mig að saga niður. Sama finnst mér um hús og götur, þó finnast mér vera fleiri ljót hús og götur en ljót tré. Mig langar til að fela þessi ljótu hús og götur á bakvið falleg tré en sum vil ég bara brjóta niður og gróðursetja í staðinn falleg tré eða byggja fallegri hús.  Þetta er það sem mér finnst.

Ég veit að mörgum öðrum finnst þetta líka, okkur dreymir nefnilega flest um að byggja og búa í fallegri borg, með líflegum skjólsælum götum og görðum. En því miður er það þannig að það tekur tíma að byggja borgir, Róm var jú ekki byggð á einum degi. Við íslendingar erum svolítið óheppnir með það, fyrir utan að búa á hjara veraldar, að borgin okkar Reykjavík byggðist að verulegu leyti upp eftir að blikktruntan leysti hestinn og tvo jafnfljóta af hólmi. Engin hefð var fyrir þéttbýli og hvað þá fyrir ræktun trjágróðurs líkt og víðast hvar í nágrannalöndum okkar. Þetta leiddi til þess að þéttbýlið byggðist fyrst og fremst á forsendum bílsins að fyrirmynd Amerískra úthverfa og bílaborga.Á þeim rúmlega hundrað árum sem trjá- og skógrækt hefur verið stunduð hér á landi höfum við tekið í notkun fjölmargar tegundir sem hafa sýnt sig vera harðgerðar og nytsamar. Reynslan hefur hjálpað okkur við að velja út þær tegundir og afbrigði sem henta best. Leitin eftir harðgerðum trjátegundum hefur oft verið nokkuð torsótt og mörg áföll dunið á okkur, það alvarlegasta páskahretið 1963 þegar margar trjátegundir svo að segja þurrkuðust út á Suð-vestanverðu landinu. Þetta var hrikalegt áfall fyrir trjárækt en í stað þess að leggja árar í bát var farið í söfnunarleiðangur til Alaska og þar voru fundin ný afbrigði Alaskaaspa og sitkagrenis sem mörg hver hafa sýnt sig vera harðgerðari en eldri afbrigði. Þetta sást t.d. glögglega á Alaskaösp í hretinu 2003.

En hvað er harðgerði og hvernig veljum við tegundir fyrir borgarumhverfi?Vaxtarskilyrði innan borga eru margbreytileg, bæði með tilliti til jarðvegs, vatnsbúskaps og veðurfars á hverjum stað. Oft eru skilyrðin öfgakennd eins og í þéttri byggð þar sem getur orðið bæði heitara og þurrara en á opnari svæðum. Þetta getur valdið trjánum mikilli streitu sem rýrir vaxtarskilyrði tegunda sem annars eru harðgerðar, dæmi um slíkar tegundir eru t.d. birki og greni og fleiri úr norrænu eða landrænu loftslagi. Sömu aðstæður geta hinsvegar hentað öðrum tegundum sem annars eru taldar viðkvæmar, þetta eru gjarnan suðlægari tegundir eða tegundir úr hafrænu loftslagi. Plöntuval í borgarumhverfi þarf því að vera vel ígrundað með tilliti til mismunandi vaxtarkrafa og aðlögunarhæfni tegunda.  

Hlynur-suðurgata

Við val á trjátegundum til notkunar í borgarumhverfi þarf því að hafa ýmislegt í huga, tegundin þarf að vera harðgerð við þau skilyrði sem eru á hverjum stað, og það sem skiptir kannski ekki minnstu máli þarf hún að henta í það hlutverk sem henni er ætlað.

Semsagt- rétt tegund> á réttan stað> fyrir rétt hlutverk. Fyrsta spurningin við val á trjátegund er því, hvaða hlutverki á hún að gegna.Í skilgreiningu á hugtakinu Borgarskógrækt og ræktun græna netsins er umhverfi trjáa í borgum skipt niður í þrjú megin svæði (Sæbo et al. 2002)::1.      Tré sem vaxa í skógarreitum í útjaðri byggðar eða milli uppbyggðra svæða innan borgarmarka. 2.      Tré sem vaxa í einka- og almenningsgörðum innan uppbyggðra svæða. 3.      Tré sem standa í hellulögðu eða malbikuðu umhverfi við götur og umferðaræðar eða á torgum. Skoðum lauslega þetta umhverfi, hlutverk trjátegundanna í því og hvaða tegundir hentar í þau.

Byrjum að skoða fyrsta svæðið; skógarreitir í útjaðri byggðar eða milli uppbyggðra svæða innan borgarmarka. Meginhlutverk þessara svæða sem við getum kallað borgarskóga er að mynda skjól fyrir byggðina og góð og fjölbreytt útivistarsvæði fyrir borgarbúa. Erlendar og innlendar rannsóknir hafa sýnt að þetta eru verðmætustu útivistarsvæðin og hér leitar fólk upplyftingar í grænu umhverfi laust við áreiti borgarinnar. Fólk vill upplifa grósku, margbreytileika og að skógarnir hafi náttúrulegt og villt yfirbragð. Hér eru það fyrst og fremst náttúrulegar aðstæður sem takmarka það úrval tegunda sem hægt er að nota, fjölbreytileiki og sjálfbærni skiptir hér höfuðmáli. Flestar algengar tegundir koma hér til greina, birki, elri, aspir, reynir, greni og fura allt eftir því hvað aðstæður leifa, og trén mega vera margbreytileg í útliti og það sérstaka eins og skrýtið óvenjulegt vaxtarlag er velkomið.

 Þegar við hinsvegar skipuleggjum og ræktum tré i görðum innan uppbyggðra svæða í borginni þá breytast þær kröfur sem við gerum til trjágróðurs. Kröfurnar eru fastmótaðri og þurfa að lúta lögmálum borgarinnar með tilliti til fegurðar, umhirðu og endingar og síðast en ekki síst notagildis. Trjágróðurinn í görðunum þarf að vera fallegur allan ársins hring, trén eiga að mynda grænt, skjólsælt og fallegt umhverfi, en samt ekki skyggja of mikið á sólina, fjölbreytileikinn í trjágróðrinum þarf að vera skipulagður og fyrirséður, við plöntum reynivið til að fá meðalstórt tré sem blómstrar í júní og fær rauð ber í ágúst og svo haustliti í september. Ræktunarskilyrðin eru almennt betri í borginni en í skógarreitunum og auðveldara að stjórna þeim, við getum plantað viðkvæmari tegundum hér sem krefjast betra atlætis, að því tilskyldu að framkvæmd og útkoma hugnist notendunum, þ.e. borgarbúum. Það þarf að gæta þess að hafa hæfilega blöndu af mismunandi tegundum svo sem hraðvaxta, stórvaxnar, lágvaxnar og langlífar. Hraðvaxta tegundirnar eins og alaskaösp og víðir mynda fljótt gróskumikið og skjólsælt umhverfi, þær gegna hlutverki frumherjanna, verða gjarnan fljótt nokkuð stórvaxnar og eru sjaldan langlífar, þær fá því síðar að víkja fyrir langlífari trjám með meiri karakter eins og hlyn, aski, beyki og silfurreyni, tegundir sem eru oft lengi að koma sér fyrir en verða með aldrinum mikil um sig og stórfengleg og vegna langlífis síns verða hluti af sögu borgarlandslagsins og tengja saman kynslóðir. Ásamt stórvöxnu trjánum plöntum við einnig fallegum lágvöxnum og meðalháum trjám eins og birki, gráelri, svartelri, ilmreyni, skrautreyni, alpareyni, gullregn og hegg svo eitthvað sé upp talið. Ekki má heldur gleyma sígrænum trjám eins og stafafuru, bergfuru og greni þar sem það á við. Séð úr Ártúnsbrekku árið 2002

Það mætti planta miklu meira af öllum þessum trjátegundum í stærri görðum borgarinnar og ekki síst á grænum svæðum með götum og hraðbrautum. Þessi endalausu grænu svæði með vegum í borginni ætti að nýta miklu betur til trjáræktar, en ekki viðhalda með ærnum tilkostnaði sem vel snoðuðum grænum eyðimörkum. Hér er rými til að planta trjálundum og trjábeltum og hafa það að leiðarljósi að eftir að trjágróður er kominn á legg verða svæðin ódýrari í umhirðu og skapa skjól fyrir byggðina í kring.

En skoðun nú umhverfi götutrjáa og val á trjátegundum sem eiga að standa í hellulögðu eða malbikuðu umhverfi við götur og umferðaræðar eða á torgum. Það eru þessi tré sem kannski sameina okkur hér í dag. Þetta eru trén sem eiga að gera gráar götur okkar svolítið grænni, gera borgina okkar svolítið meira eins og í útlöndum, við viljum flest hafa þau en þau mega samt ekki vera fyrir. Þetta eru þau tré sem við gerum kröfur til að vaxi í nánast engum jarðvegi, að þau vaxi nákvæmlega eins og eftir formúlunni, 4,5 metrar undir krónuna sem svo á að vera þétt og falleg, ekki of breið og passlega há, trén eiga að hafi þétt rótarkerfi sem leitar ekki út, þola mengun, salt og vind og einnig að geta staðið í þurrum jarðvegi, sem þó stundum getur verið blautur og mettaður salti og þungmálmum. Já hvaða tegund getum við notað?Samkvæmt könnun sem gerð var á vegum Evrópskt verkefnis og m.a. íslendingar tóku þátt í þá er fábreytni í tegundavali eitt helsta áhyggjuefni borgarskógræktarmanna, fjórar tegundir bera uppi um 70- 80% allra götutrjáa í NV-Evrópu. Í London eru um 50% götutrjáa platantré og í Óslo eru 80% allra götutrjáa Linditré (Pauleit et al. (2002)). Menn eru minnugir þess að Hollenska álmsýkin drap á síðustu öld nær öll álmtré sem voru með algengari götutrjám bæði í norður Ameríku og norður Evrópu. Það er því talið forgangsmál að auka fjölbreytni í tegundavali til að koma í veg fyrir að eitthvað álíka gerist aftur. En það eru ótrúlega fáar tegundir sem þola það að vera götutré, það er jú ekki svo auðvelt líf. Það er í raun tómt mál fyrir mig að telja upp þær tegundir sem við getum notað sem götutré hérlendis. Reynsla okkar er mjög takmörkuð og almennt sú að flestar algengar tegundir sem við ræktum henta engan veginn eða illa sem götutré. Íslenski reyniviðurinn og birkið eru dæmi um tegundir sem hafa ekki sýnt góð þrif sem götutré nema helst þar sem lítið álag er á þeim af völdum salts og vinds og trén varin fyrir skemmdum á berki og greinum.  Ástæðan er sú að þessar tegundir eru lítið saltþolnar og ýmsir kvillar herja t.d. á reynivið svo sem reyniáta sem auðveldlega smitast í sár á berki. Vaxtarlag þessara tegunda er einnig of margbreytilegt til að heildarsvipur þeirra í götuumhverfi standist kröfur um einsleitni og einnig er erfitt að fá nægjanlega háan stofn á þau með auðveldu móti. Ýmsar aðrar tegundir sem hafa hinsvegar sýnt sig þrífast ágætlega í erfiðu gatnaumhverfi, mun betur en birki og reynir, þetta eru tegundir eins og alpareynir, skrautreynir, gráreynir, garðahlynur og silfurreynir. Þær eiga það flestar hinsvegar sameiginlegt að vera seinvaxnar og með lágan stofn sem gerir það mjög torvelt að nota þær í götuumhverfi nema þar sem rými er nægjanlegt. Garðahlynur og silfurreynir eru nokkuð algengar tegundir sem götutré víða erlendis en verða þó sjaldnar fyrir valinu þar sem erfitt er að rækta þau með nægjanlega háum stofni. Hérlendis eru til gömul tré sem standa með miklum sóma í erfiðu götuumhverfi eins og garðahlynurinn á horni Vonarstrætis og Suðurgötu og Silfurreynir við Hringbraut. Þau eiga það hinsvegar sameiginlegt að hafa fengið að vaxa upp undir minna álagi í uppvextinum og fengið til þess góðan tíma, hlynurinn gróðursettur 1918 og silfurreynirinn um 1930. 

Alaskaösp við Laugarveginn árið 2002Alaskaöspin er hinsvegar sú tegund sem hvað best hefur staðið sig, hún kemur almennt vel til, og er nægjanlega stórvaxin og stofnhá til að henta í götuumhverfi. Hún hefur sýnt merkilega góð þrif jafnvel þar sem rótarrými er takmarkað. Úrval á harðgerðum klónum alaskaaspa er nokkuð gott og hægt að velja úr nokkrum gerðum sem sumar hverjar hafa granna krónu sem er mikill kostur í þröngum götum.

Til að tryggja góðan árangur í ræktun götutrjáa hérlendis sem og erlendis er tvennt sem þarf að huga að sem lýtur að öðrum þáttum en tegundavali. Fyrra atriðið er að planta út stórum vel skóluðum stofnháum trjám með góðu rótarkerfi. Á því hefur hinsvegar verið mikill skortur hérlendis nema helst á alaskaösp. Sveitarfélög þurfa að tryggja sér aðgang að slíkum plöntum, í sumum tilfellum má flytja þær inn erlendis frá, en í flestum tilfellum eru þær tegundir og yrki sem við viljum nota ekki í framleiðslu erlendis. Þá þarf að tryggja að þær séu framleiddar hérlendis. Seinna atriðið sem ég vildi minnast á er notkun á svokölluðu rótarvænu burðarlagi. Tré þurfa miklu meira rótarrými en flestir halda, og fái þau ekki það sem þau þurfa leita ræturnar út fyrir sitt gróðurbeð ef þær geta það, og ekki alltaf þangað sem við viljum. Með rótarvænu burðarlagi er trjánum tryggt nægjanlegt vaxtarrými í jarðvegslagi sem er þannig uppbyggt að það virkar jafnframt sem burðarlag fyrir gangstéttir og götur, þar af kemur nafnið Rótarvænt burðarlag. Rótarvænt burðarlag er uppbyggt af 80-85% samkorna grófri möl og 15-20% jarðvegi. Það tryggir trjárótunum ekki einungis stærra rótarbeð heldur einnig það sem ekki minna máli skiptir, tryggir trjárótunum súrefni.  Og burðargeta rótarvæns burðarlags er samanburðarhæft við það burðarlag sem notuð er í gatnagerð í dag.Ég vil að lokum segja þetta, Það tekur tré áratugi að vaxa og verða að stórum trjám en það tekur einungis 10 mínútur að saga það niður. Ræktun borgar- og götutrjáa er langtíma fjárfesting og mikilvægt að stunda yfirveguð og fagleg vinnubrögð sem eru byggð á reynslu og rannsóknum. Takk fyrir

Fegrun borgarinnar og hugleiðingar um Lækjartorg

Það eru gleðifréttir að það eigi að verja 6,5 miljörðum í að fegra borgina og endurbæta sameiginleg rými Reykvíkinga eins og Lækjartorg, Ingólfstorg og fleiri svæði. Ég er ekki í vafa að þeim peningum er vel varið, bæði skapar það störf fyrir einstaklinga og minni verktaka og svo gerir það borginna vistlegri,  skemmtilegri og ef vel tekst til skapandi. Það er ekki svo lítils virði að gera umhverfi okkar meira skapandi og nærandi í ljósi nýjustu rannsókna sem sýna að skapandi greinar hérlendis velti jafnmiklu og áliðnaðurinn.

Lækjatorg-1926-Livari-Leiviskä               Lækjartorg árið 1926

Lækjatorg hefur síðustu áratugina verið hálfgerður vandræðastaður í borginni og aldrei virkað almennilega sem borgartorg ólíkt Austurvelli sem alltaf stendur fyrir sýnu hvort sem er í margmenni eða fámenni. Ástæðan fyrir því að Austurvöllur er alltaf áhugaverður staður í mínum huga og að ég tel flestra íslendinga er að hann meira einskonar garðtorg eða Square (http://en.wikipedia.org/wiki/Russell_Square) eins og tíðkast í London, þar sem gæðin eru fólginn bæði í mannlífi en ekki síst gróðursæld og menningarlegu umhverfi. Lækjatorgi vantar eiginleika garðtorgsins og virkar því fremur grátt og nöturlegt þegar lítið er um að vera það. Það er samt ekki endilega rétt að breyta Lækjatorgi í garðtorg heldur að huga frekar af því að auka lifandi starfssemi við torgið, koma lífi í húsin þar ekki síst vestanmegin þar sem héraðsdómur er staðsettur sem ekkert líf gefur út á torgið.  Fyrir utan að gæða húsin meira lífi þyrfti að bæta skjól á svæðinu og gera það hlýlegra með gróðri, gjarnan sígrænum runnum og fallegum gosbrunni til minningar um brunninn sem var áður þar. Torgið mætti láta flæða út á Lækjargötu og tengja þannig við Stjórnarráðið, þannig væri einnig hægt að hægja á umferðinni.

Það væri einnig áhugavert að gera svæði þar sem heitt vatn og ljós væri notað til að gera skúlptúr jafnvel með upphituðum sætum til að mynda einhverskonar aðdráttarafl. Þetta ætti vissulega vel við í borg sem kennir sig við reyk, listaverk þetta væri síbreytilegt eftir því hvernig viðrar ekki síst á vetrum þegar gufa og lýsing gætu myndað dulúðlega stemmningu. Þetta er engin ný hugmynd fyrir Lækjartorg, ég hef heyrt um margar útfærslur og erlendis má sjá góðar fyrirmyndir ekki síst í okkar gömlu höfuðborg Kaupmannahöfn þar sem gufuspúandi eirskúlptúrarnir við Axeltorv gegnt innganginum í Tívolí njóta sín vel í gráu vetrarveðrinu. Besta fyrirmyndina tel ég hinsvegar vera Sankt Hans Torv þar sem mikill nútímalegur granítskúlptúr með vatnsspili rammar inn fremur opið torg og aðskilur frá umferðargötu.sjá td. http://www.dac.dk/visKanonVaerk.asp?artikelID=2715#  Áhugasömum vil ég benda á borgarhönnuðinn Jan Gehl og hans frábæru bækur sem hann byggir á áratugalöngum rannsóknum (http://en.wikipedia.org/wiki/Jan_Gehl)

Sankt Hans Torv í KaupmannahöfnSankt Hans Torv í Kaupmannahöfn- loftmynd

Sankt Hans Torg á Norðurbrú í Kaupmanna- höfn

                                                                                                                                                             Í lokin vil ég sem landslagsarkitekt og garðyrkjumaður sannarlega vona að faglega verði staðið að verki við fegrun og endurbætur á sameiginlegum svæðum borgarinnar, að landslagsarkitektar verði fengnir til að endurhanna torgin og að faglærðir skrúðgarðyrkjumenn sjái svo um framkvæmdir.  


Sjógarður í Vík og gildi fjörunnar

Sjógarður í Vík - Þessi fyrirsögn í Sunnlenska fréttablaðinu kveikti heldur betur í landslagsarkitektinum í mér þegar ég rak augun í hana. Ég byrjaði í huganum að hanna strandgarð með stígum, melgresishólum, bekkjum og dvalasvæðum.  Myndir af fallegu gróðurlendi sem víða einkennir sandfjöruna með suðurströndinni kom einnig upp í hugann; melgresið, hrímblaðkan, bláliljan, sæhvönnin, fjöruarfinn og strandkálið.

Það urðu viss vonbrigði hjá mér þegar ég las lengra og áttaði mig á því að þarna var um að ræða sjóvarnargarð en ekki garð í þeirri merkingu sem kviknaði upp í huga mér. Svo hugsaði ég lengra og sá að það getur vissulega farið vel saman að gera sjóvarnargarð og umhverfi sem hentar til útivistar. Víða í sjávarþorpum og bæjum um land allt er hinsvegar búið að gera sjóvarnargarða vanalega með ærnum tilkostnaði og útkoman gjarnan þannig  að eftir stendur óaðlaðandi og óaðgengilegt mannvirki þar sem áður var fjaran með öllum þeim frábæru leik og útivistarmöguleikum sem hún gaf allt árið um kring.

Það er í raun grátlegt að horfa upp á það hvernig hver ströndin á fætur annarri hefur verið eyðilögð og með ólíkindum hvað það hefur gengið átakalaust fyrir sig.  Margur hefur minningar úr fjörunni að fleyta kerlingar eða að keppa við ölduna. Fá börnin okkar tækifæri til þess í dag í nærumhverfi sínu?  Eru minningar þeirra um ströndina kannski bara frá útlöndum?  Hér á höfuðborgarsvæðinu þar sem ég bý eru orðnar æði fáar strendur eftir sem ekki hafa verið eyðilagðar með einum eða örðum hætti og með því tapast einhver þau allra veðmætustu útivistarsvæði sem við íslendingar eigum. Sumstaðar hefur þó vissulega verið tekið tillit til útivistar og aðgengis t.d. á ströndinni umhverfis golfvallarsvæðið á Seltjarnarnesi. Þar er sjóvarnargarðurinn rofinn á stöku stað til að hægt sé að ganga niður í fjöruna og það sem er ekki síður mikilvægt að ekki hefur verið fyllt alveg út í fjöruna. Annarstaðar hefur verið staðið myndarlega að verki eins og um Kársnes í Kópavogi og einnig með norðurströnd Reykjavíkur við Sæbraut þó að þar séu öll bein tengsl við sjóinn rofinn og ekkert orðið eftir af fjörunni. Þar er ekki heldur neitt skjól eða afdrep fyrir fuglana eins og sker eða skjólsælar víkur. Man einhver eftir skarfaskerjunum úti við Klöpp á svipuðum slóðum og aðkeyrslan að Hörpunni eru í dag?

En þetta þarf ekki að vera svona? Í framkvæmdum á svo kostnaðarsömum og mikilvægum mannvirkjum sem sjóvarnargörðum er vel réttlætanlegt að hanna og byggja slík mannvirki þannig að þau henti um leið sem útivistarsvæði . Mörg dæmi eru um þetta t.d. eins og hjá golfvellinum á Settjarnarnesi eins og ég minntist á áðan og einnig erlendis. Mjög skemmtilegur strandgarður var t.a.m. verið gerður í Kaupmannahöfn árið 2006, Amager Strandpark sem er í dag mjög vinsælt útivistarsvæði árið um kring.

Í starfi mínu sem kennari á Umhverfisskipulagsbraut Landbúnaðarháskóla Íslands hef ég fengið nemendur mína í námskeiðinu „Græna netið“ til að gera könnun á gæðum og notkun á strandsvæðum á Höfuðborgarsvæðinu, Akranesi og Borgarnesi. Allstaðar þar sem aðgengi er gott eru þetta með vinsælustu útivistarsvæðum fyrir alla aldurshópa. Það sem kemur skýrt fram í könnun nemenda er að mestu máli skiptir að aðgengi með ströndinni sé gott og samfellt, en á því er víða mikill misbrestur sérstaklega á sunnanverðu Seltjarnarnesi og um Arnarnes þar sem einkalóðir ná víða alveg niður að sjó. Það er vert að minna á það hér að samkvæmt 23. grein í lögum um náttúruvernd þá stendur „Óheimilt er að setja niður girðingu á vatns-, ár- eða sjávarbakka þannig að hindri umferð gangandi mannahttp://www.althingi.is/lagas/138b/1999044.html Þetta er hinsvegar efni í sér umfjöllun.

Það ætti að verða metnaðarmál okkar íslendinga sem búum í þessu frábæra landi að bera meiri virðinu fyrir ströndinni og þeim órjúfanlegu böndum sem hún og hafið tengjast menningu okkar og náttúru. Varðveitum gæði strandarinnar þar sem það er hægt og endurheimtum gæði hennar þar sem þau hafa tapast.

Strandfólkvangurinn við Vík í Mýrdal gæti verið skref í þá átt, landslagsarkitektar sem nú í kreppunni eru margir atvinnulausir hafa þekkingu til að skipuleggja og hanna slík svæði, ströndin er auðlind sem allir eiga njóta.

Amagaer strandpark Kaupmannahöfn

Amagaer strandpark Kaupmannahöfn - Skilti


Austurvöllur - vettvangur lýðræðis

Á undanförnum mánuðum hefur vetrarlífið á Austurvelli verið mun fjölbreytilegra en oft áður, þar koma mótmælin á laugardögum auðvitað við sögu og nú síðast fyrir framan Alþingishúsið. Mótmælin eru birtingarmynd lifandi lýðræðis, hvað svo sem sumum kann að þykja um raunveruleg eða ímynduð skrílslæti sem þeim fylgja. Það gerir Austurvöll enn verðmætari í huga fólks að hann sé ekki bara stássstofa fyrir hátíðar og fagnaðarstundir heldur vettvangur lýðræðis, þar sem allir geti tjáð sína skoðun og jafnvel óánægju.

 

Þetta bloggkorn mitt um Austurvöll  kemur til vegna mótmælanna að undanförnu, en er liður í greinaröð sem ég kalla “gangan um græna netið” (þ.e. net útivistarsvæða á höfuðborgarsvæðinu) og er því lítillegt hliðarstökk frá strandlínunni þar sem ég var staddur yfir á þennan völl allra landsmanna.

 

Í raun má segja að Austurvöllur sé upphafsreitur græna netsins í Reykjavík, hann hefur alltaf verið táknræn miðja Reykjavíkur og íslenska lýðveldisins. Austurvöllur er jafnframt fyrsta opinbera græna svæði sem yfirvöld á Íslandi byggja í kjölfar þess að borgarstjórn Kaupmannahafnar gaf Íslendingum sjálfsmynd Bertels Thorvaldsen í tilefni 1000 ára afmælis Íslands 1874. Löngu áður hafði Austurvöllur þó verið miðja bæjarins, þar slógu bændur upp sínum tjöldum þegar kaupstefna var á haustin og þar dró Jörundur Hundadagakonungur upp fána „fyrsta íslenska lýðveldisins” 1809. Í þá daga var Austurvöllur þó mun stærri og náði alveg að húsaröðinni við Hafnarstræti. Það er því ýmislegt sem hefur gerst á Austurvelli hvort heldur sem talað er um opinbera atburði eins og 17. júní, óeirðirnar 1949, mótmælin núna veturinn 2008-2009, eða persónulegri atburði eins og þegar Jón hitti Gunnu.

Austurvöllur um 1801 

Teikning eftir Aage Nielse-Edwin sem sýnir Reykjavík 1801

Austurvöllur er alveg einstakur staður, hvar er betra skjól á sólríkum sumardegi þegar kulsöm norðanáttin leikur um Kvosina eins og hún gerir svo oft. Iðandi af mannlífi á sumrin í góðu veðri eru fáir staðir yndislegri í Reykjavík. Það má telja furðulegt að ekki hafi verið byggðir fleiri staðir í Reykjavík eins og Austurvöllur, það er að segja skjólríkur staður fyrir fólk í skjóli húsa sem snýr á móti sólu, það er jú aldalöng hefð fyrir slíku skipulagi, burstabæirnir með hlaðið sunnan undir gafli voru svona gerðir. Íslendingar eru gaflarar, ekki bara Hafnfirðingar, það er eins og skipulagsfræðingar og arkitektar landsins hafi ekki alveg áttað sig á þessu a.m.k. þegar maður sér þá opna allt upp fyrir norðanáttinni t.d. með svokölluðum sjónásum á Esjuna.

 

Suðurgaflastefnan ætti að vera grunnurinn í öllu skipulagi á Íslandi, hugsið ykkur þétta lágreista byggð 3-4 hæða húsa þar sem sólin nær niður á götuna og þið getið gengið úr einum austurvellinum til annars í sól og skjóli. Fagurt útsýni er gott, skjól er betra enda nýtur augað þess betur sem það sér ekki sífellt.

 

Þetta var svolítill útúrdúr, förum aftur á Austurvöll. Stundum, eins og t.d. eftir marga rigningadaga þegar fæturnir sökkva ofan í drulluna á grasvellinum og á veturna þegar hálir klakabunkar gera völlinn að háskasvæði, gæti okkur þótt betra og menningarlegra að hafa hellulagt yfirborð, jafnvel upphitað en þó held ég að fáir myndu vilja skipta á því og iðagrænu grasinu sem skreytir Austurvöll á sumrin.

En mikið má gera til að gera Austurvöll að enn betri stað en hann er í dag og langar mig að koma með nokkrar tillögur.

Það sem að mestu máli skipti væri að koma meira lífi í allar hliðar hans, sérstaklega vil ég benda á Landsímahúsið sem virkar mjög niðurdrepandi á vesturhlið hans. Svæðið framan við það sem snýr að Kirkjustræti og að Fógetagarðinum er einnig alveg steindautt, þarna þyrfti að koma á fót líflegri starfsemi sem laðar að sér fólk. Í raun þá hafa bankar og stofnanir að verulegu leyti drepið lífið í Kvosinni, sjáið til dæmis Landsbankann við Austursstræti og Hafnarstræti og Héraðsdóm við Lækjartorg.

Það má hugsa sér að útvíkka Austurvöll út í meira borgartorg á bílastæðið sem er bak við Kirkjustræti, það er mikil þörf fyrir meira opinbert útirými sérstaklega á stórhátíðum og góðviðrisdögum, þar gæti þróast nýtt smáverslana og kaffihúsatorg og saman myndu þau mynda stærri og þróttmeiri Kvosarmiðbæ, auk þess að mynda sterkari tengsl yfir í Ráðhúsið.

Til að tryggja sem mest líf í götum verður að gæta þess að ein verslun taki ekki heilu og hálfu húsalengjurnar, eins og bankarnir hafa gjarnan gert, heldur að þær taki sem minnst pláss af götulengjunni og nái þá lengra inn í bakhúsreitinn ef þörf er á.

 

Hvað sem að framtíðin ber í skauti sér vona ég að Austurvöllur fái áfram að vera það sem hann er í dag, staður fólksins.

 

 


Blái Borðinn á norðurströnd Seltjarnarness - Gengið um Græna netið

Það var fallegt og fremur kalt veður sunnudaginn 11. janúar þegar við héldum áfram göngu okkar um Græna Netið. Við lögðum bílnum okkar við á bílastæðinu við Gróttu, sem er frábær staður til að njóta útsýnis þegar er fallegt sólarlag eða brim. Leiðin sem við völdum að þessu sinni var frá Gróttu um norðurströnd Seltjarnarness að bæjarmörkum Reykjavíkur við Eiðisvík og þaðan tilbaka og upp hjá kirkjunni og um göngustígakerfi gegnum íbúðarhverfin (Strandahverfi, Hofgarða og Sefgarða) og niður um túnið á Nesi að göngustígnum við Seltjörn. Gangan tók um klukkustund á hægu rölti.
2 Seltjarnarnes_-_norðurströnd_21 2 Seltjarnarnes_-_norðurströnd_31
Það er mikill kostur að geta valið sér hringleiðir, það er einhvern veginn miklu skemmtilegra því þá sér maður eitthvað nýtt alla leiðina.
Í góða veðrinu var fullt af fólki, gangandi, hlaupandi, hjólandi, akandi. Það er einnig margt að sjá á þessari leið, skemmtilegar fornminjar sem flestar tengjast útgerð sem Settjarnarnesbær hefur af myndarbrag hugsað vel um og víða sett upp upplýsandi merkingar þeim tengdum.
Á göngu okkar sáum við sel sem fór um með miklum bægslagangi, eins og hann væri í æti og flokkur af máfum sem fylgdi honum, þarna sáum við einnig sérkennilegan og litskrúðugan fugl, Hávellu, sem er nokkuð algeng á þessum slóðum.                                                                                                 Við ákváðum að fara út að sveitarfélagamörkunum þar sem eru fallegar steinhleðslur úr sjávarnúnu grjóti, handverk sem fáir núlifandi menn kunna. Þaðan gengum við upp fram hjá bæjarskrifstofunum upp tröppurnar hjá Seltjarnarneskirkju. Uppi á Valhúsahæð er ágætis útsýni. Við gengum áfram um göngustíg sem liggur um íbúðarhverfi og nokkuð skjólsælli en með ströndinni, þarna má skoða marga fallega garða, sumir hverjir með fáséðum sígrænum tegundum og öðum eins og Notofagus eða Snælenja á íslensku. Það er áhugavert að sjá hvað margar plöntutegundir þrífast í særokinu á Seltjarnarnesi, tegundir sem oft eru viðkvæmar annars en kunna vel við sig á vetrarmildum svæðum sem þessu.
Gönguna enduðum við með að ganga fram hjá Nesstofu að göngustígnum við Seltjörn og Gróttu.

Þessi gönguleið er nokkuð samfelld og öll malbikuð og auðfarin ef undan eru skildar tröppurnar og brekkan upp að kirkjunni á Valhúsahæð. Það er ágætt að með stígnum við ströndina er breið grasræma sem er mýkra undirlag að ganga á og gott til að hvíla fæturna á malbikinu.

2 Seltjarnarnes_-_norðurströnd_52


Gengið um Græna Netið - Strandlengjan við golfvöllinn á Seltjarnarnesi

 

Mikið var það yndislegt eftir allan kreppubarninginn að fá langt og gott jólafrí eins og gafst nú um jólin, dumbungurinn úti gerði það að verkum að maður svaf ansi þungt á morgnana. Það var því orðið nokkuð mikið af því góða fyrstu helgina eftir nýár svo við hjónin ákváðum að fá okkur hressilegan göngutúr og varð það fyrir valinu að ganga út á Nesi.

Við lögðum bílnum á bílastæðinu við Bakkatjörn og gengum suðurum nesið í hring um golfvöll Seltirninga. Margt fólk var á ferli þótt að það væri æði lágskýjað, líklega eins og við að reyna að hrista af sér jólaværðina og meira að segja tveir vel dúðaðir golfspilarar voru að berja kúlu á vellinum.

Á heiðskýrum dögum er þarna víðsýnt bæði suðurum til Bessastaða og Álftaness og út allan Reykjanesskaga og að norðanverðu til Akraness, Esjunnar og alla leið til Snæfellsness. Á lágskýjuðum degi þegar skyggni er lítið eins og þeim sem við völdum í gönguna er einnig ýmislegt að sjá á þessari leið, mikið fuglalíf og jafnvel getur maður séð seli liggja á skerjum ef maður er heppinn eins og við vorum í þetta skipti.

Yst á nesinu eru stríðsminjar, eftirlitsstöð og fallbyssuhreiður frá seinni heimstyrjöldinni sem nýtist ágætlega í fuglaskoðun. Þaðan gengum við eftir göngustígnum að bílastæðinu við Gróttu og svo fjöruna til baka.

 Útivistarsvæðið við golfvöllinn, striðsminjar í fjaska 

Þessi ganga okkar er upphafið að gönguferðum sem við hyggjust fara í á næstunni um Græna Netið svokallaða, sem er net útivistarsvæða tengt saman með hjólreiða- og göngustígum á höfuðborgarsvæðinu. Blái borðinn er tilvalið nafn á strandlengjuna til aðgreiningar frá öðrum leiðum Græna Netsins sem liggja inni í borginni. Tilgangurinn er að kortleggja svæðið með myndum og frásögnum af upplifunum til að kanna betur Græna Netið. Göngustíga- og hjólreiðakerfið má finna á götukortunum í símaskránni.

 

 Á þessari leið var ýmislegt að sjá og skoða sem tengist mínu fagi. Göngustígurinn umhverfis golfvöllinn er malarstígur sem er nokkuð mýkri undir fæti en malbikuðu stígarnir sem eru víðast hvar. Þeir geta hins vegar verið erfiðir sem hjólreiðastígar en í þessu tilviki er þetta ekki aðalstígur heldur hreinn útivistarstígur og eykur því fjölbreytileika.

 

Víða með ströndinni um höfuðborgarsvæðið hafa verið hlaðnir sjóvarnargarðar sem er ágætt framtak í sjálfu sér en gerir það að verkum að aðgengi í fjöruna verður mjög lítið eða erfitt þar sem stórgrýti er í görðunum, fjaran sem er frábært útivistarsvæði er í raun klippt frá fólki. Tilraunir hafa verið gerðar á stígnum um golfvöllinn á Seltjarnarnesi til að bæta úr þessu og eiga þeir hrós skilið sem staðið hafa að því. Aðgengið er þannig útfært að gerð er einskonar hlaðin renna eða rampur. Hann vill hins vegar fyllast af þara í brimi og er því ekki víst að hann virki vel í öllum tilfellum og þarinn oft háll. Í sandfjörum eins og við Seltjörn er þetta ekki vandamál. Þar er fjaran opin og breið enda iðulega margt fólk sem gengur þar.

Fjaran er spennandi útivistarsvæði, og nýtist til dæmis bæði sem kennslustofa og leikvöllur fyrir börn. Henni hefur að mestu leyti verið lokað eða jafnvel eyðilögð með fyllingum á höfuðborgarsvæðinu. Fjaran við Seltjörn ein örfárra sem eftir er því þótt hún sé að mestu leyti varin með stórgrýti má samt komast niður í hana á auðveldan hátt frá bílastæðinu nálægt Gróttu. Hinu megin við golfvöllinn er aðgengið hins vegar erfitt.

 Rampur niður í fjöruna við golfvöllinn

Þessi leið er skemmtileg og þægileg ganga fyrir alla og nóg að skoða. Hún er síbreytileg eftir veðri og árstíðum og þótt oft blási þá er útsýnið stórfenglegt. Þrátt fyrir að vera svo að segja í borginni þá er nálægðin við náttúruna mikil. Þarna gefst einstakt tækifæri til að komast í snertingu við náttúruöflin og víðáttuna.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband