Færsluflokkur: Gróður og garðar

Tré fyrir götur og torg

Þessa grein er byggð á erindi sem ég hélt á ráðstefnu sem haldin var um tré fyrir götur og torg mánudaginn 21. Febrúar síðastliðinn.

Mér finnast tré falleg, öll tré, líka þau ljótu, nema kannski þau allra ljótustu, þau langar mig að saga niður. Sama finnst mér um hús og götur, þó finnast mér vera fleiri ljót hús og götur en ljót tré. Mig langar til að fela þessi ljótu hús og götur á bakvið falleg tré en sum vil ég bara brjóta niður og gróðursetja í staðinn falleg tré eða byggja fallegri hús.  Þetta er það sem mér finnst.

Ég veit að mörgum öðrum finnst þetta líka, okkur dreymir nefnilega flest um að byggja og búa í fallegri borg, með líflegum skjólsælum götum og görðum. En því miður er það þannig að það tekur tíma að byggja borgir, Róm var jú ekki byggð á einum degi. Við íslendingar erum svolítið óheppnir með það, fyrir utan að búa á hjara veraldar, að borgin okkar Reykjavík byggðist að verulegu leyti upp eftir að blikktruntan leysti hestinn og tvo jafnfljóta af hólmi. Engin hefð var fyrir þéttbýli og hvað þá fyrir ræktun trjágróðurs líkt og víðast hvar í nágrannalöndum okkar. Þetta leiddi til þess að þéttbýlið byggðist fyrst og fremst á forsendum bílsins að fyrirmynd Amerískra úthverfa og bílaborga.Á þeim rúmlega hundrað árum sem trjá- og skógrækt hefur verið stunduð hér á landi höfum við tekið í notkun fjölmargar tegundir sem hafa sýnt sig vera harðgerðar og nytsamar. Reynslan hefur hjálpað okkur við að velja út þær tegundir og afbrigði sem henta best. Leitin eftir harðgerðum trjátegundum hefur oft verið nokkuð torsótt og mörg áföll dunið á okkur, það alvarlegasta páskahretið 1963 þegar margar trjátegundir svo að segja þurrkuðust út á Suð-vestanverðu landinu. Þetta var hrikalegt áfall fyrir trjárækt en í stað þess að leggja árar í bát var farið í söfnunarleiðangur til Alaska og þar voru fundin ný afbrigði Alaskaaspa og sitkagrenis sem mörg hver hafa sýnt sig vera harðgerðari en eldri afbrigði. Þetta sást t.d. glögglega á Alaskaösp í hretinu 2003.

En hvað er harðgerði og hvernig veljum við tegundir fyrir borgarumhverfi?Vaxtarskilyrði innan borga eru margbreytileg, bæði með tilliti til jarðvegs, vatnsbúskaps og veðurfars á hverjum stað. Oft eru skilyrðin öfgakennd eins og í þéttri byggð þar sem getur orðið bæði heitara og þurrara en á opnari svæðum. Þetta getur valdið trjánum mikilli streitu sem rýrir vaxtarskilyrði tegunda sem annars eru harðgerðar, dæmi um slíkar tegundir eru t.d. birki og greni og fleiri úr norrænu eða landrænu loftslagi. Sömu aðstæður geta hinsvegar hentað öðrum tegundum sem annars eru taldar viðkvæmar, þetta eru gjarnan suðlægari tegundir eða tegundir úr hafrænu loftslagi. Plöntuval í borgarumhverfi þarf því að vera vel ígrundað með tilliti til mismunandi vaxtarkrafa og aðlögunarhæfni tegunda.  

Hlynur-suðurgata

Við val á trjátegundum til notkunar í borgarumhverfi þarf því að hafa ýmislegt í huga, tegundin þarf að vera harðgerð við þau skilyrði sem eru á hverjum stað, og það sem skiptir kannski ekki minnstu máli þarf hún að henta í það hlutverk sem henni er ætlað.

Semsagt- rétt tegund> á réttan stað> fyrir rétt hlutverk. Fyrsta spurningin við val á trjátegund er því, hvaða hlutverki á hún að gegna.Í skilgreiningu á hugtakinu Borgarskógrækt og ræktun græna netsins er umhverfi trjáa í borgum skipt niður í þrjú megin svæði (Sæbo et al. 2002)::1.      Tré sem vaxa í skógarreitum í útjaðri byggðar eða milli uppbyggðra svæða innan borgarmarka. 2.      Tré sem vaxa í einka- og almenningsgörðum innan uppbyggðra svæða. 3.      Tré sem standa í hellulögðu eða malbikuðu umhverfi við götur og umferðaræðar eða á torgum. Skoðum lauslega þetta umhverfi, hlutverk trjátegundanna í því og hvaða tegundir hentar í þau.

Byrjum að skoða fyrsta svæðið; skógarreitir í útjaðri byggðar eða milli uppbyggðra svæða innan borgarmarka. Meginhlutverk þessara svæða sem við getum kallað borgarskóga er að mynda skjól fyrir byggðina og góð og fjölbreytt útivistarsvæði fyrir borgarbúa. Erlendar og innlendar rannsóknir hafa sýnt að þetta eru verðmætustu útivistarsvæðin og hér leitar fólk upplyftingar í grænu umhverfi laust við áreiti borgarinnar. Fólk vill upplifa grósku, margbreytileika og að skógarnir hafi náttúrulegt og villt yfirbragð. Hér eru það fyrst og fremst náttúrulegar aðstæður sem takmarka það úrval tegunda sem hægt er að nota, fjölbreytileiki og sjálfbærni skiptir hér höfuðmáli. Flestar algengar tegundir koma hér til greina, birki, elri, aspir, reynir, greni og fura allt eftir því hvað aðstæður leifa, og trén mega vera margbreytileg í útliti og það sérstaka eins og skrýtið óvenjulegt vaxtarlag er velkomið.

 Þegar við hinsvegar skipuleggjum og ræktum tré i görðum innan uppbyggðra svæða í borginni þá breytast þær kröfur sem við gerum til trjágróðurs. Kröfurnar eru fastmótaðri og þurfa að lúta lögmálum borgarinnar með tilliti til fegurðar, umhirðu og endingar og síðast en ekki síst notagildis. Trjágróðurinn í görðunum þarf að vera fallegur allan ársins hring, trén eiga að mynda grænt, skjólsælt og fallegt umhverfi, en samt ekki skyggja of mikið á sólina, fjölbreytileikinn í trjágróðrinum þarf að vera skipulagður og fyrirséður, við plöntum reynivið til að fá meðalstórt tré sem blómstrar í júní og fær rauð ber í ágúst og svo haustliti í september. Ræktunarskilyrðin eru almennt betri í borginni en í skógarreitunum og auðveldara að stjórna þeim, við getum plantað viðkvæmari tegundum hér sem krefjast betra atlætis, að því tilskyldu að framkvæmd og útkoma hugnist notendunum, þ.e. borgarbúum. Það þarf að gæta þess að hafa hæfilega blöndu af mismunandi tegundum svo sem hraðvaxta, stórvaxnar, lágvaxnar og langlífar. Hraðvaxta tegundirnar eins og alaskaösp og víðir mynda fljótt gróskumikið og skjólsælt umhverfi, þær gegna hlutverki frumherjanna, verða gjarnan fljótt nokkuð stórvaxnar og eru sjaldan langlífar, þær fá því síðar að víkja fyrir langlífari trjám með meiri karakter eins og hlyn, aski, beyki og silfurreyni, tegundir sem eru oft lengi að koma sér fyrir en verða með aldrinum mikil um sig og stórfengleg og vegna langlífis síns verða hluti af sögu borgarlandslagsins og tengja saman kynslóðir. Ásamt stórvöxnu trjánum plöntum við einnig fallegum lágvöxnum og meðalháum trjám eins og birki, gráelri, svartelri, ilmreyni, skrautreyni, alpareyni, gullregn og hegg svo eitthvað sé upp talið. Ekki má heldur gleyma sígrænum trjám eins og stafafuru, bergfuru og greni þar sem það á við. Séð úr Ártúnsbrekku árið 2002

Það mætti planta miklu meira af öllum þessum trjátegundum í stærri görðum borgarinnar og ekki síst á grænum svæðum með götum og hraðbrautum. Þessi endalausu grænu svæði með vegum í borginni ætti að nýta miklu betur til trjáræktar, en ekki viðhalda með ærnum tilkostnaði sem vel snoðuðum grænum eyðimörkum. Hér er rými til að planta trjálundum og trjábeltum og hafa það að leiðarljósi að eftir að trjágróður er kominn á legg verða svæðin ódýrari í umhirðu og skapa skjól fyrir byggðina í kring.

En skoðun nú umhverfi götutrjáa og val á trjátegundum sem eiga að standa í hellulögðu eða malbikuðu umhverfi við götur og umferðaræðar eða á torgum. Það eru þessi tré sem kannski sameina okkur hér í dag. Þetta eru trén sem eiga að gera gráar götur okkar svolítið grænni, gera borgina okkar svolítið meira eins og í útlöndum, við viljum flest hafa þau en þau mega samt ekki vera fyrir. Þetta eru þau tré sem við gerum kröfur til að vaxi í nánast engum jarðvegi, að þau vaxi nákvæmlega eins og eftir formúlunni, 4,5 metrar undir krónuna sem svo á að vera þétt og falleg, ekki of breið og passlega há, trén eiga að hafi þétt rótarkerfi sem leitar ekki út, þola mengun, salt og vind og einnig að geta staðið í þurrum jarðvegi, sem þó stundum getur verið blautur og mettaður salti og þungmálmum. Já hvaða tegund getum við notað?Samkvæmt könnun sem gerð var á vegum Evrópskt verkefnis og m.a. íslendingar tóku þátt í þá er fábreytni í tegundavali eitt helsta áhyggjuefni borgarskógræktarmanna, fjórar tegundir bera uppi um 70- 80% allra götutrjáa í NV-Evrópu. Í London eru um 50% götutrjáa platantré og í Óslo eru 80% allra götutrjáa Linditré (Pauleit et al. (2002)). Menn eru minnugir þess að Hollenska álmsýkin drap á síðustu öld nær öll álmtré sem voru með algengari götutrjám bæði í norður Ameríku og norður Evrópu. Það er því talið forgangsmál að auka fjölbreytni í tegundavali til að koma í veg fyrir að eitthvað álíka gerist aftur. En það eru ótrúlega fáar tegundir sem þola það að vera götutré, það er jú ekki svo auðvelt líf. Það er í raun tómt mál fyrir mig að telja upp þær tegundir sem við getum notað sem götutré hérlendis. Reynsla okkar er mjög takmörkuð og almennt sú að flestar algengar tegundir sem við ræktum henta engan veginn eða illa sem götutré. Íslenski reyniviðurinn og birkið eru dæmi um tegundir sem hafa ekki sýnt góð þrif sem götutré nema helst þar sem lítið álag er á þeim af völdum salts og vinds og trén varin fyrir skemmdum á berki og greinum.  Ástæðan er sú að þessar tegundir eru lítið saltþolnar og ýmsir kvillar herja t.d. á reynivið svo sem reyniáta sem auðveldlega smitast í sár á berki. Vaxtarlag þessara tegunda er einnig of margbreytilegt til að heildarsvipur þeirra í götuumhverfi standist kröfur um einsleitni og einnig er erfitt að fá nægjanlega háan stofn á þau með auðveldu móti. Ýmsar aðrar tegundir sem hafa hinsvegar sýnt sig þrífast ágætlega í erfiðu gatnaumhverfi, mun betur en birki og reynir, þetta eru tegundir eins og alpareynir, skrautreynir, gráreynir, garðahlynur og silfurreynir. Þær eiga það flestar hinsvegar sameiginlegt að vera seinvaxnar og með lágan stofn sem gerir það mjög torvelt að nota þær í götuumhverfi nema þar sem rými er nægjanlegt. Garðahlynur og silfurreynir eru nokkuð algengar tegundir sem götutré víða erlendis en verða þó sjaldnar fyrir valinu þar sem erfitt er að rækta þau með nægjanlega háum stofni. Hérlendis eru til gömul tré sem standa með miklum sóma í erfiðu götuumhverfi eins og garðahlynurinn á horni Vonarstrætis og Suðurgötu og Silfurreynir við Hringbraut. Þau eiga það hinsvegar sameiginlegt að hafa fengið að vaxa upp undir minna álagi í uppvextinum og fengið til þess góðan tíma, hlynurinn gróðursettur 1918 og silfurreynirinn um 1930. 

Alaskaösp við Laugarveginn árið 2002Alaskaöspin er hinsvegar sú tegund sem hvað best hefur staðið sig, hún kemur almennt vel til, og er nægjanlega stórvaxin og stofnhá til að henta í götuumhverfi. Hún hefur sýnt merkilega góð þrif jafnvel þar sem rótarrými er takmarkað. Úrval á harðgerðum klónum alaskaaspa er nokkuð gott og hægt að velja úr nokkrum gerðum sem sumar hverjar hafa granna krónu sem er mikill kostur í þröngum götum.

Til að tryggja góðan árangur í ræktun götutrjáa hérlendis sem og erlendis er tvennt sem þarf að huga að sem lýtur að öðrum þáttum en tegundavali. Fyrra atriðið er að planta út stórum vel skóluðum stofnháum trjám með góðu rótarkerfi. Á því hefur hinsvegar verið mikill skortur hérlendis nema helst á alaskaösp. Sveitarfélög þurfa að tryggja sér aðgang að slíkum plöntum, í sumum tilfellum má flytja þær inn erlendis frá, en í flestum tilfellum eru þær tegundir og yrki sem við viljum nota ekki í framleiðslu erlendis. Þá þarf að tryggja að þær séu framleiddar hérlendis. Seinna atriðið sem ég vildi minnast á er notkun á svokölluðu rótarvænu burðarlagi. Tré þurfa miklu meira rótarrými en flestir halda, og fái þau ekki það sem þau þurfa leita ræturnar út fyrir sitt gróðurbeð ef þær geta það, og ekki alltaf þangað sem við viljum. Með rótarvænu burðarlagi er trjánum tryggt nægjanlegt vaxtarrými í jarðvegslagi sem er þannig uppbyggt að það virkar jafnframt sem burðarlag fyrir gangstéttir og götur, þar af kemur nafnið Rótarvænt burðarlag. Rótarvænt burðarlag er uppbyggt af 80-85% samkorna grófri möl og 15-20% jarðvegi. Það tryggir trjárótunum ekki einungis stærra rótarbeð heldur einnig það sem ekki minna máli skiptir, tryggir trjárótunum súrefni.  Og burðargeta rótarvæns burðarlags er samanburðarhæft við það burðarlag sem notuð er í gatnagerð í dag.Ég vil að lokum segja þetta, Það tekur tré áratugi að vaxa og verða að stórum trjám en það tekur einungis 10 mínútur að saga það niður. Ræktun borgar- og götutrjáa er langtíma fjárfesting og mikilvægt að stunda yfirveguð og fagleg vinnubrögð sem eru byggð á reynslu og rannsóknum. Takk fyrir

Síðustu möndlukartöflurnar teknar upp

Það er alveg ljóst, veturinn er kominn, ég hélt lengi að haustið myndi vara fram til jóla. Í þeirri von geymdi ég að taka upp eitt kartöflugras útí garði sem ég myndi síðan taka upp á Þorláksmessu til að fá splúnkunýjar kartöflur að borða með kæstu skötunni. Það var svo spennandi tilhugsun að geta borðað nýjar kartöflur með gamalli skötu.

En í gær sá ég að nú gæti ég ekki beðið lengur, búið að snjóa og frysta og ekki takandi sú áhætta að kartöflurnar frysu. Þetta eru nefnilega ekki bara venjulegar kartöflur heldur ekta sænskar möndlukartöflur, hið mesta hnossgæti og þykja ómissandi með þjóðlegum réttum eins og surstömming og lutfisk. Uppskeran var bara nokkuð góð hjá mér 9 meðalstórar kartöflur, mátulegt í eina máltíð.

Möndlukartöflur eru nokkuð sér á parti, þær eru mjög eftirsóttar í Skandínavíu og seljast töluvert dýrara en aðrar. Ástæðan fyrir þessu háa verði liggur bæði í vinsældum hennar og þess að hún gefur nokkuð minni uppskeru en aðrar algengar kartöflur. Þær þykja mjölmiklar, bragðgóðar, fallegar í útliti og ómissandi með bæði þjóðlegum- og jólamat. Þær eru nokkuð frábrugðnar öðrum kartöflum að því leiti að þær þurfa styttri suðu og springa illilega ef soðnar of lengi. Þær má ekki sjóða í meira en 10-15 mínútur breytilegt eftir stærð. Þetta er auðvitað alveg kjörin sparnaðarleið nú í kreppunni að rækta kartöflur sem þurfa styttri suðu og spara þannig rafmagn. Kannski liggur grunnurinn að vinsældum hennar í þessu hjá okkar sparsömu grönnum.

Möndlukartafla

Fyrir þá sem hafa áhuga á að rækta möndlukartöflur vil ég benda viðkomandi á að félagar í Matjurtaklúbbi Garðyrkjufélags Íslands hafa skipst á útsæði af ýmsum kartöfluyrkjum og þar á meðal möndlunni, svo það er bara að ganga í klúbbinn. http://gardurinn.is

Óg svo áður en kartaflan er sett ofaní pottinn er upplagt að skoða hvernig skal sjóða og matreiða möndluna: http://www.bama.no/eway/default.aspx?pid=241&trg=Content_6140&Main_4489=6177:0:10,2683&Content_6140=6178:0:10,2902


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband