Sjógarður í Vík og gildi fjörunnar

Sjógarður í Vík - Þessi fyrirsögn í Sunnlenska fréttablaðinu kveikti heldur betur í landslagsarkitektinum í mér þegar ég rak augun í hana. Ég byrjaði í huganum að hanna strandgarð með stígum, melgresishólum, bekkjum og dvalasvæðum.  Myndir af fallegu gróðurlendi sem víða einkennir sandfjöruna með suðurströndinni kom einnig upp í hugann; melgresið, hrímblaðkan, bláliljan, sæhvönnin, fjöruarfinn og strandkálið.

Það urðu viss vonbrigði hjá mér þegar ég las lengra og áttaði mig á því að þarna var um að ræða sjóvarnargarð en ekki garð í þeirri merkingu sem kviknaði upp í huga mér. Svo hugsaði ég lengra og sá að það getur vissulega farið vel saman að gera sjóvarnargarð og umhverfi sem hentar til útivistar. Víða í sjávarþorpum og bæjum um land allt er hinsvegar búið að gera sjóvarnargarða vanalega með ærnum tilkostnaði og útkoman gjarnan þannig  að eftir stendur óaðlaðandi og óaðgengilegt mannvirki þar sem áður var fjaran með öllum þeim frábæru leik og útivistarmöguleikum sem hún gaf allt árið um kring.

Það er í raun grátlegt að horfa upp á það hvernig hver ströndin á fætur annarri hefur verið eyðilögð og með ólíkindum hvað það hefur gengið átakalaust fyrir sig.  Margur hefur minningar úr fjörunni að fleyta kerlingar eða að keppa við ölduna. Fá börnin okkar tækifæri til þess í dag í nærumhverfi sínu?  Eru minningar þeirra um ströndina kannski bara frá útlöndum?  Hér á höfuðborgarsvæðinu þar sem ég bý eru orðnar æði fáar strendur eftir sem ekki hafa verið eyðilagðar með einum eða örðum hætti og með því tapast einhver þau allra veðmætustu útivistarsvæði sem við íslendingar eigum. Sumstaðar hefur þó vissulega verið tekið tillit til útivistar og aðgengis t.d. á ströndinni umhverfis golfvallarsvæðið á Seltjarnarnesi. Þar er sjóvarnargarðurinn rofinn á stöku stað til að hægt sé að ganga niður í fjöruna og það sem er ekki síður mikilvægt að ekki hefur verið fyllt alveg út í fjöruna. Annarstaðar hefur verið staðið myndarlega að verki eins og um Kársnes í Kópavogi og einnig með norðurströnd Reykjavíkur við Sæbraut þó að þar séu öll bein tengsl við sjóinn rofinn og ekkert orðið eftir af fjörunni. Þar er ekki heldur neitt skjól eða afdrep fyrir fuglana eins og sker eða skjólsælar víkur. Man einhver eftir skarfaskerjunum úti við Klöpp á svipuðum slóðum og aðkeyrslan að Hörpunni eru í dag?

En þetta þarf ekki að vera svona? Í framkvæmdum á svo kostnaðarsömum og mikilvægum mannvirkjum sem sjóvarnargörðum er vel réttlætanlegt að hanna og byggja slík mannvirki þannig að þau henti um leið sem útivistarsvæði . Mörg dæmi eru um þetta t.d. eins og hjá golfvellinum á Settjarnarnesi eins og ég minntist á áðan og einnig erlendis. Mjög skemmtilegur strandgarður var t.a.m. verið gerður í Kaupmannahöfn árið 2006, Amager Strandpark sem er í dag mjög vinsælt útivistarsvæði árið um kring.

Í starfi mínu sem kennari á Umhverfisskipulagsbraut Landbúnaðarháskóla Íslands hef ég fengið nemendur mína í námskeiðinu „Græna netið“ til að gera könnun á gæðum og notkun á strandsvæðum á Höfuðborgarsvæðinu, Akranesi og Borgarnesi. Allstaðar þar sem aðgengi er gott eru þetta með vinsælustu útivistarsvæðum fyrir alla aldurshópa. Það sem kemur skýrt fram í könnun nemenda er að mestu máli skiptir að aðgengi með ströndinni sé gott og samfellt, en á því er víða mikill misbrestur sérstaklega á sunnanverðu Seltjarnarnesi og um Arnarnes þar sem einkalóðir ná víða alveg niður að sjó. Það er vert að minna á það hér að samkvæmt 23. grein í lögum um náttúruvernd þá stendur „Óheimilt er að setja niður girðingu á vatns-, ár- eða sjávarbakka þannig að hindri umferð gangandi mannahttp://www.althingi.is/lagas/138b/1999044.html Þetta er hinsvegar efni í sér umfjöllun.

Það ætti að verða metnaðarmál okkar íslendinga sem búum í þessu frábæra landi að bera meiri virðinu fyrir ströndinni og þeim órjúfanlegu böndum sem hún og hafið tengjast menningu okkar og náttúru. Varðveitum gæði strandarinnar þar sem það er hægt og endurheimtum gæði hennar þar sem þau hafa tapast.

Strandfólkvangurinn við Vík í Mýrdal gæti verið skref í þá átt, landslagsarkitektar sem nú í kreppunni eru margir atvinnulausir hafa þekkingu til að skipuleggja og hanna slík svæði, ströndin er auðlind sem allir eiga njóta.

Amagaer strandpark Kaupmannahöfn

Amagaer strandpark Kaupmannahöfn - Skilti


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband