Austurvöllur - vettvangur lýðræðis

Á undanförnum mánuðum hefur vetrarlífið á Austurvelli verið mun fjölbreytilegra en oft áður, þar koma mótmælin á laugardögum auðvitað við sögu og nú síðast fyrir framan Alþingishúsið. Mótmælin eru birtingarmynd lifandi lýðræðis, hvað svo sem sumum kann að þykja um raunveruleg eða ímynduð skrílslæti sem þeim fylgja. Það gerir Austurvöll enn verðmætari í huga fólks að hann sé ekki bara stássstofa fyrir hátíðar og fagnaðarstundir heldur vettvangur lýðræðis, þar sem allir geti tjáð sína skoðun og jafnvel óánægju.

 

Þetta bloggkorn mitt um Austurvöll  kemur til vegna mótmælanna að undanförnu, en er liður í greinaröð sem ég kalla “gangan um græna netið” (þ.e. net útivistarsvæða á höfuðborgarsvæðinu) og er því lítillegt hliðarstökk frá strandlínunni þar sem ég var staddur yfir á þennan völl allra landsmanna.

 

Í raun má segja að Austurvöllur sé upphafsreitur græna netsins í Reykjavík, hann hefur alltaf verið táknræn miðja Reykjavíkur og íslenska lýðveldisins. Austurvöllur er jafnframt fyrsta opinbera græna svæði sem yfirvöld á Íslandi byggja í kjölfar þess að borgarstjórn Kaupmannahafnar gaf Íslendingum sjálfsmynd Bertels Thorvaldsen í tilefni 1000 ára afmælis Íslands 1874. Löngu áður hafði Austurvöllur þó verið miðja bæjarins, þar slógu bændur upp sínum tjöldum þegar kaupstefna var á haustin og þar dró Jörundur Hundadagakonungur upp fána „fyrsta íslenska lýðveldisins” 1809. Í þá daga var Austurvöllur þó mun stærri og náði alveg að húsaröðinni við Hafnarstræti. Það er því ýmislegt sem hefur gerst á Austurvelli hvort heldur sem talað er um opinbera atburði eins og 17. júní, óeirðirnar 1949, mótmælin núna veturinn 2008-2009, eða persónulegri atburði eins og þegar Jón hitti Gunnu.

Austurvöllur um 1801 

Teikning eftir Aage Nielse-Edwin sem sýnir Reykjavík 1801

Austurvöllur er alveg einstakur staður, hvar er betra skjól á sólríkum sumardegi þegar kulsöm norðanáttin leikur um Kvosina eins og hún gerir svo oft. Iðandi af mannlífi á sumrin í góðu veðri eru fáir staðir yndislegri í Reykjavík. Það má telja furðulegt að ekki hafi verið byggðir fleiri staðir í Reykjavík eins og Austurvöllur, það er að segja skjólríkur staður fyrir fólk í skjóli húsa sem snýr á móti sólu, það er jú aldalöng hefð fyrir slíku skipulagi, burstabæirnir með hlaðið sunnan undir gafli voru svona gerðir. Íslendingar eru gaflarar, ekki bara Hafnfirðingar, það er eins og skipulagsfræðingar og arkitektar landsins hafi ekki alveg áttað sig á þessu a.m.k. þegar maður sér þá opna allt upp fyrir norðanáttinni t.d. með svokölluðum sjónásum á Esjuna.

 

Suðurgaflastefnan ætti að vera grunnurinn í öllu skipulagi á Íslandi, hugsið ykkur þétta lágreista byggð 3-4 hæða húsa þar sem sólin nær niður á götuna og þið getið gengið úr einum austurvellinum til annars í sól og skjóli. Fagurt útsýni er gott, skjól er betra enda nýtur augað þess betur sem það sér ekki sífellt.

 

Þetta var svolítill útúrdúr, förum aftur á Austurvöll. Stundum, eins og t.d. eftir marga rigningadaga þegar fæturnir sökkva ofan í drulluna á grasvellinum og á veturna þegar hálir klakabunkar gera völlinn að háskasvæði, gæti okkur þótt betra og menningarlegra að hafa hellulagt yfirborð, jafnvel upphitað en þó held ég að fáir myndu vilja skipta á því og iðagrænu grasinu sem skreytir Austurvöll á sumrin.

En mikið má gera til að gera Austurvöll að enn betri stað en hann er í dag og langar mig að koma með nokkrar tillögur.

Það sem að mestu máli skipti væri að koma meira lífi í allar hliðar hans, sérstaklega vil ég benda á Landsímahúsið sem virkar mjög niðurdrepandi á vesturhlið hans. Svæðið framan við það sem snýr að Kirkjustræti og að Fógetagarðinum er einnig alveg steindautt, þarna þyrfti að koma á fót líflegri starfsemi sem laðar að sér fólk. Í raun þá hafa bankar og stofnanir að verulegu leyti drepið lífið í Kvosinni, sjáið til dæmis Landsbankann við Austursstræti og Hafnarstræti og Héraðsdóm við Lækjartorg.

Það má hugsa sér að útvíkka Austurvöll út í meira borgartorg á bílastæðið sem er bak við Kirkjustræti, það er mikil þörf fyrir meira opinbert útirými sérstaklega á stórhátíðum og góðviðrisdögum, þar gæti þróast nýtt smáverslana og kaffihúsatorg og saman myndu þau mynda stærri og þróttmeiri Kvosarmiðbæ, auk þess að mynda sterkari tengsl yfir í Ráðhúsið.

Til að tryggja sem mest líf í götum verður að gæta þess að ein verslun taki ekki heilu og hálfu húsalengjurnar, eins og bankarnir hafa gjarnan gert, heldur að þær taki sem minnst pláss af götulengjunni og nái þá lengra inn í bakhúsreitinn ef þörf er á.

 

Hvað sem að framtíðin ber í skauti sér vona ég að Austurvöllur fái áfram að vera það sem hann er í dag, staður fólksins.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband