Gengið um Græna Netið - Strandlengjan við golfvöllinn á Seltjarnarnesi

 

Mikið var það yndislegt eftir allan kreppubarninginn að fá langt og gott jólafrí eins og gafst nú um jólin, dumbungurinn úti gerði það að verkum að maður svaf ansi þungt á morgnana. Það var því orðið nokkuð mikið af því góða fyrstu helgina eftir nýár svo við hjónin ákváðum að fá okkur hressilegan göngutúr og varð það fyrir valinu að ganga út á Nesi.

Við lögðum bílnum á bílastæðinu við Bakkatjörn og gengum suðurum nesið í hring um golfvöll Seltirninga. Margt fólk var á ferli þótt að það væri æði lágskýjað, líklega eins og við að reyna að hrista af sér jólaværðina og meira að segja tveir vel dúðaðir golfspilarar voru að berja kúlu á vellinum.

Á heiðskýrum dögum er þarna víðsýnt bæði suðurum til Bessastaða og Álftaness og út allan Reykjanesskaga og að norðanverðu til Akraness, Esjunnar og alla leið til Snæfellsness. Á lágskýjuðum degi þegar skyggni er lítið eins og þeim sem við völdum í gönguna er einnig ýmislegt að sjá á þessari leið, mikið fuglalíf og jafnvel getur maður séð seli liggja á skerjum ef maður er heppinn eins og við vorum í þetta skipti.

Yst á nesinu eru stríðsminjar, eftirlitsstöð og fallbyssuhreiður frá seinni heimstyrjöldinni sem nýtist ágætlega í fuglaskoðun. Þaðan gengum við eftir göngustígnum að bílastæðinu við Gróttu og svo fjöruna til baka.

 Útivistarsvæðið við golfvöllinn, striðsminjar í fjaska 

Þessi ganga okkar er upphafið að gönguferðum sem við hyggjust fara í á næstunni um Græna Netið svokallaða, sem er net útivistarsvæða tengt saman með hjólreiða- og göngustígum á höfuðborgarsvæðinu. Blái borðinn er tilvalið nafn á strandlengjuna til aðgreiningar frá öðrum leiðum Græna Netsins sem liggja inni í borginni. Tilgangurinn er að kortleggja svæðið með myndum og frásögnum af upplifunum til að kanna betur Græna Netið. Göngustíga- og hjólreiðakerfið má finna á götukortunum í símaskránni.

 

 Á þessari leið var ýmislegt að sjá og skoða sem tengist mínu fagi. Göngustígurinn umhverfis golfvöllinn er malarstígur sem er nokkuð mýkri undir fæti en malbikuðu stígarnir sem eru víðast hvar. Þeir geta hins vegar verið erfiðir sem hjólreiðastígar en í þessu tilviki er þetta ekki aðalstígur heldur hreinn útivistarstígur og eykur því fjölbreytileika.

 

Víða með ströndinni um höfuðborgarsvæðið hafa verið hlaðnir sjóvarnargarðar sem er ágætt framtak í sjálfu sér en gerir það að verkum að aðgengi í fjöruna verður mjög lítið eða erfitt þar sem stórgrýti er í görðunum, fjaran sem er frábært útivistarsvæði er í raun klippt frá fólki. Tilraunir hafa verið gerðar á stígnum um golfvöllinn á Seltjarnarnesi til að bæta úr þessu og eiga þeir hrós skilið sem staðið hafa að því. Aðgengið er þannig útfært að gerð er einskonar hlaðin renna eða rampur. Hann vill hins vegar fyllast af þara í brimi og er því ekki víst að hann virki vel í öllum tilfellum og þarinn oft háll. Í sandfjörum eins og við Seltjörn er þetta ekki vandamál. Þar er fjaran opin og breið enda iðulega margt fólk sem gengur þar.

Fjaran er spennandi útivistarsvæði, og nýtist til dæmis bæði sem kennslustofa og leikvöllur fyrir börn. Henni hefur að mestu leyti verið lokað eða jafnvel eyðilögð með fyllingum á höfuðborgarsvæðinu. Fjaran við Seltjörn ein örfárra sem eftir er því þótt hún sé að mestu leyti varin með stórgrýti má samt komast niður í hana á auðveldan hátt frá bílastæðinu nálægt Gróttu. Hinu megin við golfvöllinn er aðgengið hins vegar erfitt.

 Rampur niður í fjöruna við golfvöllinn

Þessi leið er skemmtileg og þægileg ganga fyrir alla og nóg að skoða. Hún er síbreytileg eftir veðri og árstíðum og þótt oft blási þá er útsýnið stórfenglegt. Þrátt fyrir að vera svo að segja í borginni þá er nálægðin við náttúruna mikil. Þarna gefst einstakt tækifæri til að komast í snertingu við náttúruöflin og víðáttuna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband